Rennur upp um nótt

Tegund verkefnis: Pantað verk
Titill: Rennur upp um nótt
Fagsvið: Tónlistarflutningur
Dagsetning: 17. Mars 2013
Vettvangur: Breiðholtskirkja
Efnisorð: Sópran, tenór, kór, harpa, selló, orgel og kirkjuklukkur
Lýsing: Rennur upp um nótt fyrir tvo einsöngvara, kór, selló, hörpu, klukkuspil og orgel var samið í tilefni af vígsluafmæli Breiðholtskirkju í mars 2013. Verkið var frumflutt í Breiðholtskirkju 17. mars og síðan flutt aftur á Sumartónleikum í Skálholti þann 20. júlí. Að beiðni Arnar Magnússonar, sem pantaði verkið fyrir hönd kórs Breiðholtskirkju, liggja ljóð Ísaks Harðarsonar, úr síðasta hluta bókar hans, Rennur upp um nótt frá 2009 til grundvallar. Áður hef ég samið tvö verk við ljóð Ísaks, Stokkseyri (1998) og Hjörtinn (2003). Ísak er fyrst og fremst trúarlegt skáld og hér gafst kærkomið tilefni enn á ný til að vinna með ljóð hans. Eins og áður, er nálgun Ísaks við guðdóminn einstök, frjó og fersk og býður uppá endalausa möguleika í samsetningu. Að auki eru síðan tveir fagnaðarsálmar úr Gamla testamentinu nr. 138 og 150 sem mynda umgjörð um hina persónulegu nálgun Ísaks. Verkið er í níu stuttum köflum þar sem ég reyni að byggja upp heildstætt og sannfærandi verk úr ólíkum köflum. Ákveðin stef ganga gjarnan í gegnum ljóðabækur Ísaks og í þessu tilviki er það samband „vinanna" himins og manns. Ísak bregður upp skemmtilegum myndum í ljóðunum: Vinur (2. kafli: kemur hann enn þessi himinn!), Vinir tveir (6. kafli: Himinn á ferð um geim með mann í bandi. Gegnum nótt eftir nótt með manninn í ól úr ljósi.) og Vinir (8. kafli: Himinn og maður á ferð. Því stærri himinn, því minni maður.) Himininn kemur einnig fram í 4. kafla, Náðin, 21. öld síðar (Stagbættur himininn...). Þessir kaflar lýsa ýmsum samskiptum himins og manns þar sem gengur á ýmsu en í þeim síðasta, (Vinir, 8. kafli), eru himinn og maður ...tveir samrýmdir ferðalangar á leið heim í eilífðina. Hin ljóðin þrjú eftir Ísak eru á persónulegu nótunum: Morgnar og eilífð (3. kafli: Vildi að ég væri á ókunnum slóðum, á vegi sem aldrei endaði og liðaðist í mjúkum bugðum, sólvotur regnbjartur...), Ég hlakka til (5. kafli: ...þegar ég verð svona rólegur eins og þú) og Vordreymi (7. kafli: Hlýju hafstraumarnir norðan við Ísland eru engir hafstraumar heldur arma engla...). Sálmarnir tveir mynda síðan umgjörðina og ramma inn ákveðna samhverfu í umfjöllunarefni. Samhverfan styrkist enn frekar með því að 1., 5. og 9 kafli byggja allir á sama þrástefi. 1. Davíðssálmur - þrástef sem inngangur, millispil og eftirspil 2. „himinþema" 3. „persónulegt" 4. „himinþema" 5. „persónulegt" - þrástef' gengur í gegnum allan kaflann 6. „himinþema" 7. „persónulegt" 8. „himinþema" 9. Davíðssálmur - þrástef'' gengur í gegnum allan kaflann Samtal við hefðina er eitthvað sem ég reyni að vinna markvisst með, oftast hefur það með að gera uppbyggingu og samsetningu í fjölþátta verkum. Það getur m.a. birst með tilvísunum í dægurlagatónlist, blús eða jass ásamt tilvísunum í hina hefðbundnu tónlistarsögu. Í þessu verki er 1. kaflinn hugsaður sem virðingarvottur til J. S. Bachs og hægt að kalla einskonar kóralmótettu þar sem skiptast á hómófónískir og pólýfónískir hlutar. 3. kaflinn gæti alveg fallið undir dægurlagsskilgreininguna og 6. kaflinn er óður til Jóns Leifs, kveikjan er hljómagangur sem færist á milli heiltónaskalanna (C-Ab-E-B-Gb-D/Db-A-F-H-G-Eb).