Tilkall til fortíðar - Saga fyrir konu sem ekki átti sögu.

Titill: Tilkall til fortíðar - Saga fyrir konu sem ekki átti sögu.
Tegund: Ritrýnd grein
Útgefandi: RIKK og Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2016
Efnisorð: söguspeki, kvennasaga, minningar, ljósmyndir
Lýsing: Í greininni fjalla ég um föðurömmu mína Sigfríði Tómasdóttur, flóknar fjölskyldugerðir, vináttu og valdahlutföll á tuttugustu öld. Sigfríð fæddist á Seyðisfirði 31. maí 1907. Hún var ómagi, matráðskona og einstæð móðir. Hún var ómenntuð en hugmyndarík og hjartahlý og hafði einstakt lag á að takast á við erfiðleika með húmorinn að vopni. Í greininni veltir Sigrún Alba því fyrir sér hvaða tilkall hún hafi til sögu ömmu sinnar – og hvernig eigi að segja sögu konu sem skildi eftir sig örfáar heimildir en fjöldann allan af minningum, eins og raunin er með margt alþýðufólk. Í viðleitni til að varpa ljósi á sögu konu sem ekki átti sér neina formgerða sögu beitir Sigrún Alba kenningum á sviði minnisrannsókna, fyrirbærafræði, trámafræða og söguspeki. Greinin birtist í bókinni Margar myndir ömmu. Konur og mótun íslensk samfélags á 20. öld. Fléttur IV. Ritröð rannsóknarstofununar í jafnfréttisfræðum. Háskólaútgáfan, 2016. Um er að ræða ritrýnt greinasafn. Höfundar greina í bókinni eru: rma Erlingsdóttir, Guðmundur Hálfdánarson, Dagný Kristjánsdóttir, Berglind Rós Magnúsdóttir, Sólveig Anna Bóasdóttir, Ármann Jakobsson, Erla Hulda Halldórsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir, Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir og Súsanna Margrét Gestsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson ritar formála. Nánar um þá aðferaðfræði sem unnið er með í greininni: Ólíkt þekktum og vel menntuðum konum sem settu spor sín á söguna eða héldu dagbók á borgararlegu heimili í kaupstað við sjóinn þá skildi amma mín ekki eftir sig miklar heimildir. Ég hef ekki fundið eitt bréf sem hún hefur skrifað, hvað þá dagbók, og á hana er minnst í fáum öðrum opinberum gögnum en þjóðskrá. Ég get ekki skrifað sögu hennar með því að styðjast við heimildir og hreinar staðreyndir. Það yrði ósköp þunn saga og ekki um hana sjálfa. Saga ömmu minnar býr fyrst og fremst í minningunum og minningar byggjast á persónulegum frásögnum sem eru, hvort sem okkur líkar betur eða verr, samofnar skáldskapnum, draumunum og ímyndunaraflinu – en það er ekki þar með sagt að þær séu ekki sannar. Við þurfum á ímyndunaraflinu að halda til að setja atburði í frásagnarform og gefa þeim innihald og merkingu. Það að minnast einhvers er virk og skapandi athöfn þar sem ímyndunaraflið leikur stórt hlutverk – eða eins og bókmenntafræðingurinn og rithöfundurinn Siri Hustvedt orðar það; það sem við munum um tiltekinn atburð er aldrei annað en síðasta útgáfan af minningum okkar um þennan tiltekna atburð. Sannleikurinn býr ekki síður í þeim texta sem verður til þegar raunveruleiki og ímyndunarafl mætast en í texta sem er sneyddur öllu ímyndunarafli og heldur sig við upptalningu og staðreyndir. Allt annað er blekking. Það sama á við um minningarnar. Í greininni leitast við að gera grein fyrir tengslum minninga og ímyndunarafls út frá kenningum franska heimspekingsins Pauls Ricœur eins og hann setur þær fram í bókinni La mémoire, l’histoire, l’oubli (Minnið, sagan, gleymskan) en jafnframt út frá kenningum fyrirbærafræðinnar og sálgreiningarinnar. Minningar okkar samanstanda ekki aðeins af orðum, táknum og vitsmunalegum tengingum heldur búa þær einnig í líkamanum. Í þessu sambandi getur verið gott að hugsa út fyrir tvíhyggjuna sem aðgreiningin á huglægum og hlutlægum veruleika byggist á. Að hugsa um það sem Heidegger kallaði þarveru (d. Dasein), að hugsa um veruhátt manneskjunnar sem eitthvað sem felur í sér „veruskilning sem fer á undan kenningasmíð“, að hugsa um manneskjuna sem veru sem upplifir heiminn ekki utan frá heldur upplifir hún sig sem hluta af heiminum. Eða eins og fyrirbærafræðingurinn Dan Zahavi orðar það: „Líkaminn er ekki skermur milli mín og heimsins, heldur er hann frumlæg vera okkar í heiminum. Það er í krafti hans sem við erum meðal hlutanna.“ Aðgreiningin milli veru og heims kemur þá ekki fyrr en eftir á, þegar sjálfsveran fer að beita hugtökum og þekkingu til að greina sig frá því sem er. Þessi aðgreining er ekki sjálfgefin og krefst þess að sjálfsveran greini á milli skynjunar sinnar og þess hvernig hún hugsar um skynjun sína; að sjálfsveran breyti því sem hún upplifir í reynslu, eða svo ég noti hugtök úr fyrirbærafræði Husserls, að hún breyti Erlebnis (upplifun) í Erfahrung (reynslu). Upplifunin er háð því hvernig vitundarveran skynjar sjálfa sig og tengsl sín við veruleikann í tíma og rúmi. Reynslan verður til þegar vitundarveran yfirfærir upplifun sína á hið táknræna, þ.e. um leið og hún gefur upplifun sinni ákveðna merkingu. Til þess að sjálfsveran geti skilið sjálfa sig og aðra, og gefið lífi sínu merkingu, verður hún að geta greint sjálfa sig frá upplifun sinni eða upplifað sig sjálfa sem hinn, skoðað upplifun sína utan frá sem ákveðið ferli sem lýsa má með orðum og táknum. Að vera fær um að skoða sjálfan sig sem hinn tengist af þeim sökum ekki aðeins því að geta fundið til samlíðunar með öðrum heldur einnig því að geta deilt reynslu sinni með öðrum. En til þess verðum við að vera fær um að skoða reynslu okkar utan frá. Við þurfum að greina á milli þess sem franski heimspekingurinn Henri Bergson nefndi hreint minni (e. pure memory) og myndbirtingarminni (e. memory image). Til þess að geta endurvakið fortíðina sem mynd verðum við að vera fær um að gefa því sem virðist merkingarlaust merkingu. Við verðum að nota ímyndunaraflið til að skapa merkingu og láta þannig hið merkingarlausa taka á sig mynd. Ef við hefðum ekki ímyndunarafl værum við ófær um að breyta upplifun okkar í reynslu. Við gætum ekki horfið til hins liðna augnabliks og unnið úr því með því að setja það í samhengi við önnur augnablik, aðrar myndir eða jafnvel önnur orð. Án ímyndunaraflsins værum við einfaldlega á valdi hins hreina minnis, þess minnis sem býr í líkama okkar en við komum ekki orðum að, getum ekki kallað fram sem myndir og hvorki endurskapað né unnið með á meðvitaðan hátt. Við notum ímyndunaraflið til að skapa frásögn í kringum þær minningar sem búa innra með okkur. Frásögnin sem við sköpum byggir vissulega á raunveruleikanum, því sem raunverulega átti sér stað, en er engu að síður afurð ímyndunaraflsins. Siri Hustvedt hefur bent á að það að búa til skáldskap sé að muna það sem aldrei átti sér stað. Þegar við beitum ímyndunaraflinu til að gefa hinu liðna líf verður fortíðin raunveruleg. Hún verður hluti af okkur sjálfum. Hið raunverulega og hið ímyndaða eiga bæði hlutdeild í því sem við köllum minningar. Ef hið ímyndaða nær yfirhöndinni hættir minningin að vera til og það sama gerist ef raunveruleikinn verður of yfirþyrmandi. Ef raunveruleiki hins liðna heltekur okkur getum við ekki lengur greint hið liðna frá líðandi stund og þá stöndum við skyndilega uppi snauð af minningum en rík af upplifunum sem við megnum ekki að henda reiður á. Án ímyndunaraflsins værum við nefnilega á valdi hins hreina minnis, þess minnis sem býr í líkama okkar en við komum ekki orðum yfir, getum ekki kallað fram sem myndir og getum hvorki endurskapað né unnið með á meðvitaðan hátt. Ef við hefðum ekki ímyndunaraflið værum við ófær um að breyta upplifun okkar í frásögn. Frásagnarminni fylgir ákveðin viðurkenning á því sem átti sér stað en um leið ákveðin útilokun. Með því að innleiða upplifunina í frásögn smættum við hana niður og lítum framhjá heildarupplifun eða heildarskynjun okkar á veruleikanum. Þessi umbreyting upplifunar í frásögn felur því í sér ákveðna útilokun en engu að síður er hún nauðsynleg forsenda þess að við getum sagt frá.