ARTnord: La revue de l'actualité artistique nordique et balte

Titill: ARTnord: La revue de l'actualité artistique nordique et balte
Tegund: Tímarit
Útgefandi: Comité des historiens de l'art nordique (CHAN), París, 2018
ISBN/ISSN: 1290-4767
Efnisorð: listfræði, myndlist, hönnun, arkitektúr
Lýsing: ARTnord er tímarit sem gefið er út árlega í París og er helgað norrænni og eystrasaltneskri list. Í dag er það eina prentaða tímaritið sem fjallar um listsköpun á þessu svæði og leitast við að kynna hana utan þess. Hvert hefti tekur fyrir ákveðið þema, svo sem ljósmyndir og vídeóverk, list og náttúru, hljóðlist eða er helgað ákveðnu landssvæði. Allar greinar eru birtar á ensku og frönsku. Tímaritið er gefið út í 5.000 eintökum og er dreift til áskrifenda og í gegnum alþjóðlegan dreifingaraðila. Það er selt í bókaverslunum og öllum helstu listamiðstöðvum á Norðurlöndum, Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada. Markhópur blaðsins er áhugafólk um samtíma myndlist, ljósmyndun, arkitektúr og hönnun, svo og um norræna menningu. ARTnord var stofnað í París 1997 og hefur þróast frá háskólariti til glæsilegs tímarits á alþjóðlegan mælikvarða. ARTnord er ritrýnt og skrifað af alþjóðlegum sérfræðingum, en er um leið læsilegt og aðgengilegt. Áhersla er lögð á að birta nýjar rannsóknir, greinar, viðtöl og ríkulegt myndefni. Blaðið er prentað í Belgíu í einni af bestu prentsmiðjum Evrópu. Tímaritið er gefið út af CHAN, Comité des historiens de l’art nordique eða Félagi listfræðinga í norrænni list, og hefur skrifstofu í byggingu frönsku listfræðistofnunarinnar, Institut national d’histoire de l’art, í miðborg Parísar. Félagið skipuleggur einnig sýningar og aðra listviðburði. Það nýtur stuðnings einka- og opinberra aðila. Í vinnslu er sérhefti helgað íslenskri myndlist þar sem áhersla verður lögð á samtímalist, frá sjöunda áratugnum til dagsins í dag. Íslenskir listamenn standa nú framarlega á alþjóðlegum vettvangi og í sérheftinu verður fjallað um framlag þeirra og rætur í íslenskri og alþjóðlegri myndlist. Með þematískri nálgun og faglegri greiningu verður leitast við að kynna verk þeirra og setja í samhengi við meginstrauma í samtíðarlistinni. Verður þetta ein ítarlegasta umfjöllun um íslenska myndlist sem ráðist hefur verið í á erlendum tungumálum síðustu árin. Útgáfan verður ríkulega myndskreytt og áhersla lögð á myndgæði og prentun. Í sérhefti ARTnord um íslenska myndlist verður leitast við að greina sérstöðu íslensks myndlistarvettvangs í alþjóðlegu samhengi út frá störfum og verkum myndlistarmanna. Meðfram þematískri umfjöllun verða birtar greinar um íslenska myndlistarmenn sem starfa á alþjóðlegum vettvangi. Loks verður stutt en skýr heildarúttekt á listasöfnum og sýningarstöðum á Íslandi sem getur nýst vel áhugasömum erlendum gestum. Útgáfu sérheftisins munu tengjast viðburðir, sýningar og málþing sem skipulögð eru í samvinnu við listgallerí og menningarstofnanir í Evrópu og á Íslandi, t.a.m. kynningarviðburður með íslenskum myndlistarmönnum í samtímalistasafninu Palais de Tokyo í París, ásamt sýningum í nokkrum galleríum þar í borg. Einnig verður útgáfuhóf og viðburðir í Reykjavík.